„Hvað er varmadæla og hvernig virkar hún?“
Varmadæla er lokað hringrásarkerfi með pressu (dælu), útitæki, innitæki og í kerfinu er kælimiðill. Tilgangur þess er að nýta eiginleika kælimiðils til að flytja hitaorku milli staða í kerfinu.
Kælimiðillinn umbreytist úr vökva í gas, t.d. við þrýstifall og við það verður hann mjög kaldur og tekur til sín mikla hitaorku úr umhverfinu. Þegar hann umbreytist svo aftur í vökva, t.d. við þrýstiaukningu, ásamt allri hitaorkunni, verður hann mjög heitur.
Þensluloki stjórnar flæði kælimiðils í vökvaformi inn á útitækið með þrýstifalli svo það umbreystist í gas og það kólnar í mínus tveggja stafa tölu. Gasið tekur til sín hitaorku meðan lofthiti er hærri. Vifta hjálpar til við að endurnýja loftið næst útitækinu.
Pressa sogar kælimiðilinn í gasformi úr útitæki og þjappar honum saman í vökva ásamt allri hitaorkunni að utan svo hann verður mjög heitur. Þaðan er hann leiddur inn í innitæki sem „kælir“ hann með því að blása hitanum um rýmið.
Þessi hringrás endurtekur sig svo lengi sem varmadælan keyrir.
Ef húsið þarfnast kælingar í stað hitunar þá snýr dælan þessu ferli einfaldlega við.
Þar sem útitækið er almennt mjög kalt getur safnast ís á það sem virkar eins og einangrun. Þá hleypir varmadælan heitu gasi inn á útitækið, stutta stund, til að bræða ísinn. Þegar því er lokið heldur varmadælan áfram að hita. Þetta ferli er kallað afhríming. |