Skip to main content

Hitakútur eða neysluvatnshitari?

Smá fræði í upphafi!

Til að hita 1 kg af vatni upp um 1°C þarf 4,187 KJ (kílójoule) af orku óháð tíma sem það tekur.

Ef við setjum orkunni tímamörk upp á eina sekúndu breytist einingin í KJ/s sem er það sama og kW (kílówatt). Það þarf því 4,187 kW til að hita 1 kg af vatni upp um 1°C á einni sekúndu.

Í bæklingum og handbókum gæti verið vísað í K sem hitastig. K stendur fyrir Kelvin og er eins kvarðað og Celsíus nema að Kelvin byrjar að telja við alkul (-273°C). Kelvin kvarðinn er aldrei í mínus.

1 kg af vatni er nákvæmlega 1 lítri við 4°C en breytist óverulega því fjær dregur meðan það er í fljótandi formi. Því lítum við svo á að 1 kg af vatni samsvari 1 lítra.

Hitakútar, samsetning og útfærslur

Gegnumstreymishitari, samsetning og útfærslur

Hitakútur er einangraður geymir fyrir vatn með einu eða fleiri hitöldum, inntak fyrir kalt vatn, úttak fyrir upphitað vatn, hitaliða (termostat) og öryggisloka.

Hitakútar upp að 300 lítrum eru almenn einfasa en stærri eru almennt þrífasa.

Hægt er að fá alls konar hitakúta, t.d. með spíral til að nýta orku til upphitunar neysluvatns frá hvers konar ytri orkugjafa, t.d. frá heitri borholu, varmadælu, sólarhita og brennsluofni. Svo er hægt að fá tvískipta hitakúta þar sem vatn í efri og neðri hluta kútsins er aðskilið.

Gegnumstreymishitari er stundum kallaður rafhitari eða vatnshitari. Hann er með lögn í slaufu með umvafið hitald, rennslirofa eða -mæli, einstefnuloka, flæðistilli, hitanema, öryggi og stýrirás með skjá og hnöppum.

Hann er fáanlegur hvoru tveggja einfasa og þrífasa. Þrífasa eru mun afkastameiri og mörkin liggja yfirleitt í kringum 40A straumtöku. Það er um 9kW fyrir einfasa og 27kW fyrir þrífasa.

Sumir eru í boði í breytilegum útfærslum, t.d. með úttökum að ofan eða neðan, sumir eru með lítinn safnkút og svo er hægt að stilla hitastigið t.d. með minni eða fjarstýringu og þeir allra flottustu geta haldið aftur af rennsli til að halda uppi hitastiginu.

Hvað er hitakútur lengi að hita vatnið?

Til að svara spurningunni þarf að hafa eftirfarandi forsendur:

  • Hvað er kaldavatnið kalt?
  • Hversu stór er hitakúturinn?
  • Hversu öflugt er hitaldið?
  • Hversu hátt á að fara í heitu vatni?

Ef við gefum okkur eftirfarandi forsendur, og gerum ekki ráð fyrir orkutapi á meðan, er hægt að reikna það út:

  • Kalda vatnið 6°C
  • Stærð hitakúts 300 lítrar (ca. 300kg)
  • Hitaldið er 3kW (KJ/s)
  • Heita vatnið 70°C

Það tekur sem sagt a.m.k. 7:301/2 klukkustund að hita 300 lítra af vatni úr 6°C í 70°C með 3kW hitaldi, án tillits til hitataps.

Það gerist líklega bara þegar kúturinn er fyrst tekinn í notkun og ef hann hefur verið spennulaus í lengri tíma.

Fyrir 200 lítra kút með 2 kW hitaldi tekur það jafn langan tíma.

Fyrir 100 lítra kút með 2kW hitaldi tekur það um 3:45 klst og helmingi styttri tíma fyrir 50 lítra kút eða um 1:55 klst.

Hitakútur hentar vel þar sem aðeins er einungis einfasa rafmagn. Stærð hitakúts þarf að enduspegla áætlaða notkun en 300 lítrar ætti að öllu jöfnu að duga fyrir 4-5 manneskjur.

Hvað getur gegnumstreymishitari hitað mikið rennsli?

Til að svara spurningunni þarf að hafa eftirfarandi forsendur:

  • Hvað er kalda vatnið kalt?
  • Hversu öflugur er gegnumstreymishitarinn?
  • Hversu heitt þarf heita vatnið að vera?

Ef við gefum okkur eftirfarandi forsendur, og gerum ekki ráð fyrir orkutapi, er hægt að reikna það út:

  • Kalda vatnið 5°C
  • Afköst 27kW (kJ/s)
  • Heitt vatn 40°C

Það gefur okkur um 11 mínútulítra án tillits til mögulegs orkutaps.

Rennslið minnkar hlutfallslega eftir afköstum og hærri vatnshita út. 13kW gefur því aðeins 5,3 mínútulítra af 40°C heitu vatni.

Allt umframrennsli mun óhjákvæmilega lækka hitastig vatnsins. Aðeins sá dýrasti hjá okkur getur haldið aftur af rennslinu til að halda uppi hitastiginu.

Gegnumstreymishitarar henta vel fyrir frístundahús með þrífasa rafmagn, helst með 35A til aflögu og þar sem notkun getur verið stopul yfir árið.

Minni gegnumstreymishitarar henta einungis til handþvotta vegna þess hve kalda vatnið á Íslandi er almennt kalt.

Hitakútur eða gegnumstreymishitari?

Hvort verður fyrir valinu fer að mestu eftir aðstæðum hvers og eins og hvort sá valmöguleiki sé í boði eður ei. Fyrir frístundahús hentar gegnumstreymishitari vel ef þrífasa rafmagn er til staðar og að lágmark 35A til ráðstöfunar.

Aflminni gegnumstreymishitarar henta illa til annars en handþvotta vegna þess hve kalda vatnið er kalt á Íslandi. Gegnumstreymishitari með 5 eða 10 lítra safnkút hentar ágætlega til stakrar handþvottar.

Verðið er almennt ekki afgerandi þáttur hvort verður fyrir valinu heldur aðstæður almennt.

Hitakútur

Kostir

  • Mikið af heitu vatni til ráðstöfunar í ákveðinn tíma
  • Þarf aðeins einfasa rafmagn upp að 300 lítrum
  • Hægt að stilla hitann á allt að 90°C (Saga Standard) og 75°C (Wally)
  • Fáanlegir með blöndunarloka til að drýgja heita vatnið.
  • Henta vel þar sem notkun er nokkuð tíð

Ókostir

  • Mikil notkun yfir stuttan tíma kælir vatnið
  • Tekur gólf- eða veggpláss
  • Tekur langan tíma að hita vatn aftur
  • Þarf helst drenlögn frá öryggisloka í niðurfall
  • Hentar illa fyrir heitan pott

Gegnumstreymishitari

Kostir

  • Alltaf heitt vatn til ráðstöfunar
  • Tekur lítið pláss
  • Fjarstýrimöguleikar
  • Hægt að stilla hitastigið
  • Hentar til að láta renna í heitan pott
  • Henta vel þar sem nokun getur verið stopul

Ókostir

  • Þarf helst þrífasa rafmagn fyrir sturtu
  • Hiti og rennsli fer eftir afköstum
  • Hitastig vatns fer almennt eftir afköstum en hæst 60°C