Uppgefin raunafköst (Pdesign)* varmadælunnar þurfa að stemma við hitunarþörf hússins, því þá er varmadælan…
að skila hita til upphitunar við þær aðstæður.
að vinna nálægt hagkvæmasta álagi mestan sinn líftíma.
að skila þeirri orkunýtni sem hún er gefin upp fyrir.
nægilega stór til að ráða við enn verri aðstæður því raunafköst eru ekki hámarksafköst.
að endast eins og til var ætlast í upphafi.
*Sjá neðar.
Varast skal að nota MAX afköst dælunnar til hliðsjónar við val á varmadælu til húshitunar. Ástæðurnar eru eftirfarandi:
MAX afköstin eru langoftast gefin upp við +7°C útihita. Þegar frystir úti, fjarar hratt undan getu varmadælunnar, einmitt þegar þörfin er mest!
Nýtnisstuðullinn er ekki miðaður við MAX, svo þá hverfur allur ávinningur varmadælunnar!
Varmadæla mun keyra á 100% álagi mestan sinn líftíma sem slítur henni hratt og styttir líftímann hressilega!
Varmadælan mun einfaldlega reynast of lítil þegar mest á reynir svo inni mun kólna hratt!
“Hvað þarf ég stóra varmadælu?”
Húsið og umhverfið ákvarðar að mestu afköst varmadælunnar. Þumalputtareglan er 100w/m2 við -15°C fyrir vel einangrað hús en svo eru auðvitað alltaf einhver frávik. Gott er að vera með helstu upplýsingar um húsnæðið.
Til búsetu allt árið eða aðeins hluta úr ári?
Þar sem dvalið er að staðaldri yfir árið þarf hitinn að vera nokkuð stöðugur óháð útihita og það krefst meira af varmadælunni. Þar sem dvalið er eingöngu að sumri til og viðhaldshiti þess á milli þarf ekki svo stóra varmadælu.
Eru til gögn um núverandi hitunarkostnað?
Ef einhver gögn liggja fyrir sem sýna hitunarkostnað fyrir húsið t.d. í raforku- eða olíukostnaði er mögulega hægt að nota það til að meta hitunarþörf.
Hvernig er húsið í laginu?
Þar sem lofthæð er yfir 3 metrar ætti að tvöfalda flatarmál í útreikningi á hitunarþörf þar sem varmadælan er að hita rúmmál af lofti. Tvær eða fleiri hæðir gæti þurft fleiri innitæki. Einnig ef mjög langt er á milli útveggja.
Hversu vel er húsið einangrað?
Lítil einangrun, sólstofur, óþéttir gluggar og hurðir eykur hitaþörf og þá þarf að velja öflugari varmadælu.
Hver er staðsetning hússins?
Sumir staðir á landinu eru að jafnaði kaldari en aðrir að vetri til.
Eru aðrir hitagjafar?
Ef hitagjafar eru til staðar, t.d. kamína, arinn eða rafmagnsofnar er hægt að nota þá ef kuldinn fer óeðlilega langt niður í stuttan tíma.
“Hvað er varmadæla og hvernig virkar hún?”
Varmadæla er lokað hringrásarkerfi með pressu (dælu), útitæki, innitæki og í kerfinu er kælimiðill. Tilgangur þess er að nýta eiginleika kælimiðils til að flytja hitaorku milli staða í kerfinu.
Kælimiðillinn umbreytist úr vökva í gas, t.d. við þrýstifall og við það verður hann mjög kaldur og tekur til sín mikla hitaorku úr umhverfinu. Þegar hann umbreytist svo aftur í vökva, t.d. við þrýstiaukningu, ásamt allri hitaorkunni, verður hann mjög heitur.
Þensluloki stjórnar flæði kælimiðils í vökvaformi inn á útitækið með þrýstifalli svo það umbreystist í gas og það kólnar í mínus tveggja stafa tölu. Gasið tekur til sín hitaorku meðan lofthiti er hærri. Vifta hjálpar til við að endurnýja loftið næst útitækinu.
Pressa sogar kælimiðilinn í gasformi úr útitæki og þjappar honum saman í vökva ásamt allri hitaorkunni að utan svo hann verður mjög heitur. Þaðan er hann leiddur inn í innitæki sem “kælir” hann með því að blása hitanum um rýmið.
Þessi hringrás endurtekur sig svo lengi sem varmadælan keyrir.
Ef húsið þarfnast kælingar í stað hitunar þá snýr dælan þessu ferli einfaldlega við.
Þar sem útitækið er almennt mjög kalt getur safnast ís á það sem virkar eins og einangrun. Þá hleypir varmadælan heitu gasi inn á útitækið, stutta stund, til að bræða ísinn. Þegar því er lokið heldur varmadælan áfram að hita. Þetta ferli er kallað afhríming.
“Hvað er gott að vita um varmadælur?”
Samkvæmt Evrópustaðallinn, EN 14511, þurfa framleiðendur gefa upp ákveðnar upplýsingar til neytenda.
Ýmislegt þar gæti þótt framandi. Förum yfir tvö mikilvægustu atriðunum sem ættu að vera á tækniblaði:
Pdesign (Raunafköst) eru afköstin sem varmadælan er hönnuð til að skila við ákveðið útihitastig sem kallast Tdesign. Á raunafköstum er varmadælan svo að skila uppgefinni nýtni við uppgefið Tdesign hitastig. Hún getur mun hærra en þá á kostnað nýtninnar.
Evrópureglur gefa upp þrjú Tdesign hitastig eftir staðsetningu:
Aþena (heitt loftslag) +2°C (Valkvætt)
Strassbourg (meðalloftslag) -10°C (Skylt að gefa upp)
Helsinki (kalt loftslag) -22°C (Valkvætt)
SCOP (Seasonal Coefficient Of Performance) er meðalársnýtnin, gefin upp sem hlutfall á milli hitunaragetu (við Pdesign) og raforkunotkunar. Því hærri sem hún er, því meiri varmi fæst fyrir hverja kWst af raforku.
Evrópureglur gefa upp þrjár stuðla eftir staðsetningu:
Aþena (heitt loftslag) og meðalhiti 24°C
Strassbourg (meðalloftslag) og meðalhiti 20°C
Helsinki (kalt loftslag) og meðalhiti 10°C
Hver þessarra staða skyldi svo passa best fyrir Ísland?